Yfirlæknishúsið á Vífilsstöðum.

 

Vífilsstaðaspítali var reistur á árunum 1909 til 1910. Hann var þá ein stærsta bygging á landinu, reist eftir teikningum Rögnvalds Ólafssonar. Á næstu árum á eftir risu síðan fleiri byggingar þar í kring sem þjónuðu starfsemi spítalans. Yfirlæknishúsið var reist á árunum 1919 til 1920 og var eitt vandaðasta íbúðarhús hérlendis.  Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni og byggt fyrir Sigurð Magnússon yfirlækni spítalans. Húsið var óvenju íburðarmikið og vandað. Útveggir þess eru tvöfaldir og mór nýttur til einangrunar á milli. Mikið var jafnframt lagt í klæðningar þess og frágang að innan.

Húsið var nýtt til íbúðar fram að liðnum aldamótum en hefur staðið ónotað að mestu síðan. Það var farið að láta mikið á sjá utan sem innan og hafði fengið lítið viðhald um langt skeið. Mestu skemmdir innandyra urðu þegar heitavatnsrör gaf sig á efri hæð og vatn flæddi um allt hús.

Minjavernd hóf viðgerðir á húsinu að frumkvæði og beiðni Framskæmdasýslunnar – Ríkiseigna síðla árs 2021. Unnið er að viðgerðum á húsinu að ytra byrði, þaki, gluggum og útveggjum. Gert er ráð fyrir að þeim verkþætti verði lokið nú síðla árs 2022.

 Myndir