Franski Spítalinn á Fáskrúðsfirði

Franski spítalinn á Hafnarnesi

Frakkar hófu þorskveiðar á Íslandsmiðum 1614 og stóðu þær yfir árlega fram að fyrri heimsstyrjöld 1914. Á stríðsárunum féllu þær niður og urðu aldrei svipur hjá sjón á ný. Endanlega leggjast þær af um 1930. Hvert umfang þeirra var fyrstu öldina er ekki vitað af nákvæmni, en á árabilinu frá um 1760 til 1850 voru yfirleitt 40 til 100 skútur að veiðum. Fram að 1852 voru það fyrst og fremst útgerðarmenn frá Dunkerque sem stunduðu þessar veiðar, en það ár bætast útgerðaraðilar frá Paimpol í hópinn og þá færast veiðarnar í aukana. Þá taka skúturnar líka breytingum, en fram að þeim tíma voru notaðar þriggja mastra skútur. Með tilkomu aukinnar útgerðar frá Paimpol voru sérhannaðar liprari og hraðskreiðari tveggja mastra skútur, svonefndar gólettur eða máfar. Veiðarnar höfðu töluverð áhrif á mannlíf og samskipti Frakka við Íslendinga voru töluverð. Merkja má áhrif veiðanna í teikningum og málverkum Kjarvals og skrifum Þórbergs Þórðarsonar t.d.

Veiðar þessar færðu fólki fisk á disk en þegar best lét náði fastan yfir 166 daga árs og þurfti því verulegt magn fiskjar til að fæða heila þjóð. Þær voru líka mjög ábatasamar fyrir útgerðarmenn og einnig skipverja, en fórnir voru miklar og mannraunir tengdar veiðunum. Elín Pálmadóttir greinir frá því í bók sinni Fransí biskví að á árabilinu um 1810 til 1914 hafi um 400 skútur farist við veiðar við Ísland og með þeim um eða yfir 4000 fiskimenn. Allur aðbúnaður um borð var líka hörmulegur.

Árið 1886 skrifar Pierre Loti bókina Pecheur d´Islande – Á Íslandsmiðum. Hann var þá þekktur, vinsæll og víðförull rithöfundur í Frakklandi og eftir hans skrifum tekið. Í bókinni lýsir hann veiðunum og aðbúnaði sjómanna vel og vaknaði við það hreyfing til að bæta aðbúnað sjómanna. Í tengslum við kaþólsku kirkjuna voru stofnuð samtökin Société des Oeuvres de Mer – Sjóverkasamtökin sem beittu sér fyrir bættum aðbúnaði. Franski sjóherinn sendi í framhaldi spítalaskip til Íslands yfir vertíðir, en þau gátu ekki verið öllum stundum hvar mest var þörf og þau fórust líka eins og þegar splunkunýtt spítalaskip „Sankti Páll“ strandaði í Meðallandsfjöru 1899.

Því var fyrirséð að bæta þurfti aðbúnað á landi. Á vegum Sjóverkasamtakanna voru reist tvö hús á Fáskrúðsfirði. Sjúkraskýlið var reist 1897 að Búðum og Kapelluna byggðu þeir við hlið Sjúkraskýlisins 1899. Um aldamótin 1900 verður sú breyting á í Frakklandi að vægi kaþólsku kirkjunnar í opinberri stjórnsýslu minnkar og veraldlegri öfl ná sterkari stöðu. Það breytti ekki uppbyggingu Frakka því 1903 er reistur heill spítali á Fáskrúðsfirði og Læknishúsið var reist 1907. Franski spítalinn var í upphafi síns tíma fullkomnasta sjúkrahús landsins. Þar voru ýmis nýmæli, rennandi vatn í krönum, frárennsli, klósett, rafstöð, apótek, skurðstofur, sjúkrastofur og allt það annað sem til þurfti. Rétt ofan og til hliðar við Franska spítalann var reist lítið Líkhús. Læknishúsið var einnig stórt á sínum tíma og vel byggt. Georg Georgsson læknir var ráðinn læknir Franska spítalans og konsúll Frakka og hafði sér við hlið lækna og hjúkrunarkonur.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin skellur á og veiðum Frakka lýkur í framhaldi stóðu þessi hús lítið nýtt. Kapellan var afhelguð 1923, seld, flutt fjöl fyrir fjöl upp í plássið og gerð að íbúðarhúsi. Sjúkraskýlið var selt og því breytt í íbúðarhús. Líkhúsið var rifið. Franski spítalinn var í takmarkaðri notkun fram til 1939 þegar hann var tekinn niður fjöl fyrir fjöl og fluttur út á Hafnarnes, sunnar og utar við fjörðinn. Þar var hann reistur á ný sem íbúðarhús, fimm íbúðir og skóli. Læknishúsið var lengst í notkun þessara húsa, nýtt m.a. fyrir heilsugæslu bæjarins en fór síðan í eyði þar til gert var nokkuð við húsið til nota fyrir bæjarskrifstofur Austurbyggðar. Eftir sameiningu sveitarfélaga í Fjarðabyggð var húsið á ný orðið notkunarlítið.

Minjavernd hóf að leiða huga að húsum þessum og sögu árið 2007. Þá var séð fyrir enda á umfangsmiklu starfi félagsins að endurgerð húsa við Aðalstræti og Vesturgötu í Reykjavík og áhugi í stjórn félagsins á verkefni úti á landi. Verkefnið óx í huga og veruleika stig af stigi. Franski spítalinn var mældur upp úti á Hafnarnesi 2008 og sama ár var Fjarðabyggð kynntur áhugi félagsins á verkefninu. Upphaflega voru hugleiðingar uppi um að endurbyggja húsið úti á Hafnarnesi, en fljótlega var horfið frá því og stefnan tekin inn á Fáskrúðsfjörð. Fyrst var skoðaður möguleikinn á að setja hann á sinn upphaflega stað, en einnig var horfið frá því í ljósi breyttra kringumstæðna á þeim stað. Lóð neðan Hafnargötu, neðan Læknishúss var hins vegar auð. Því var tekin sú ákvörðun að endurreisa húsið þar og í framhaldi færðist hugsun yfir til Læknishússins og tengingar húsanna undir Hafnargötu. Þar til viðbótar var síðan tekin ákvörðun um að endurgera Sjúkraskýlið vestan Læknishússins, kaupa Kapelluna og flytja hana að vesturhlið Sjúkraskýlisins þannig að húsin tvö hefðu sömu afstöðu innbyrðis og í umhverfi og þau höfðu upphaflega. Þar til viðbótar var ákveðið að endurgera Líkhúsið einnig. Þessum fyrri hluta verkefnisins var lokið í júníbyrjun 2014 og húsin þá tekin í notkun.

Það hefur verið fastmótað viðhorf í störfum Minjaverndar að finna þeim húsum sem félagið hefur staðið að endurbyggingu á not sem henta viðkomandi verkefni eftir því sem kostur er, styrkja fjárhag verkefnis hverju sinni og styrkja umhverfi þess. Því var lögð veruleg vinna í að finna þessum húsum öllum viðfangsefni. Að niðurstöðu varð að Íslandshótel hf. leigðu fjögur húsanna fyrir vandað hótel. Eru þar Franski spítalinn, Læknishúsið að stærstum hluta, Sjúkraskýlið og Líkhúsið. Fjarðabyggð leigði hluta Læknishúss og tengingu þess við Franska spítalann undir sýningu um sögu veiðanna, húsanna og áhrif veiðanna á samstarf og samskipti landans við Frakka. Í samningum um hótelrekstur varð ljóst að fjölga þyrfti herbergjum umfram það sem  gerlegt var að koma fyrir í gömlu húsunum. Minjavernd leitaði leiða til að finna það rými í nærliggjandi húsum en ekki gafst á því kostur. Því varð að ráði að reisa nýbyggingu vestan Franska spítalans hvar komið verður fyrir viðbótargistirými og verða herbergin þá um 50 í hótelinu. Nýbygging þessi hefur form sitt frá gömlu húsunum og fellur vel inn í þá þyrpingu. 

Að þessu verkefni öllu hefur starfað stór hópur aðila, hönnuða, verktaka og starfsmanna Minjaverndar sem hafa dvalið á Fáskrúðsfirði lungað af liðnum fjórum árum. ARGOS ehf arkitektastofa, Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon hafa verið arkitektar verkefnisins frá upphafi til enda. Verkfræðiþátt hafa annast Mannvit, Efla, Verkís og Verkfræðiþjónusta Hjalta Sigmundssonar. Stærsti einstaki verktakinn hefur verið Tré og steypa ehf. en fjöldi verktaka stærri og smærri hefur komið að verkefninu. Byggingarstjóri hefur verið Ólafur Þorsteinsson. Hönnuður sýningarinnar er Árni Páll Jóhannsson. Minjavernd hefur haft með höndum alla umsjón og samhæfingu verksins og er eigandi húsanna. Fjármögnun verkefnisins hefur verið í höndum Minjaverndar sem hefur lagt töluvert til þess af eigin fé, en jafnframt hefur það verið fjármagnað með fyrirgreiðslu frá Íslandsbanka hf og Virðingu hf. Verkefnið í heild sinni mun kosta nær 1.3 milljarða án innanstokksmuna annarra en sýningarinnar.

Myndir frá upphafi til enda má sjá hér.