Norðurpóll

Norðurpóll 

Guðmundur Hávarðsson byggði húsið 1904. Hann hafði farið ungur til Noregs og var m.a. vagnstjóri í Osló. Eftir að hafa komið heim á ný kvæntist hann Valdísi Gunnarsdóttur og keypti sér land úr Rauðarártúni. Þar reisti hann húsið langt frá byggð í þann tíð. Hann gaf húsinu nafnið Norðurpóll og vísaði til leiðangra þess tíma til Norðurpólsins. Svo langt þótti þá frá Reykjavík og upp á Hlemm sem síðar varð að nafngift.

Tilgangur þeirra hjóna var þegar í upphafi að reka í húsinu veitingasölu og ýmsa þjónustu við ferðamenn. Auk veitinga í mat og kaffi höfðu þau á boðstólum flest það sem þurfti til við hestamennsku ferðalanga svo sem ólar, kaðla, svipur o.fl. slíkt. Veitingahúsið var formlega opnað 1. júlí 1905 og tilgreindur opnunartími í auglýsingu frá 07.oo að morgni til 23.oo að kveldi yfir sumarmánuði, en skemur að vetri. Hjónin þóttu viðkunnanleg og gekk veitingahúsið vel framan af.

Friðrik konungur VIII kom í heimsókn til Íslands 1907. Af því tilefni var keyptur forláta vagn svo konungur kæmist um. Þegar hugað var að hver skyldi verða vagnstjóri þótti Guðmundur vera kjörinn til starfsins, hafandi verið vagnstjóri í Osló. Honum var fengin fín ekilshempa ásamt með pípuhatti og þótti reisulegur maður kominn í þann skrúða. Þannig ferðuðust þeir Guðmundur og Friðrik vítt og breytt um Suðurland t.d. og kom fyrir að menn rugluðust á hvor var konungurinn og hvor var kúskurinn. Guðmundur ofmetnaðist nokkuð af þessum starfa sínum og tók upp siði sumra vel stæðra og veitti mönnum vel í Norðurpól. Greiddu menn fyrir kaffisopann gaf hann t.d. jafnvel á móti dýrari vindil en sem kaffinu nam. Mikil risna var á fyrirmönnum þetta sumar við konungskomu og þótti Guðmundi hann vera í þeirra hópi. Því fór svo að eftir sumarlanga rausn 1907 var rekstur þeirra hjóna úti,  Guðmundur gjaldþrota og hvarf af sjónarsviði. Fréttist síðar af honum í Danmörku.

Veitingarekstur hélt áfram í húsinu þótt þeirra Guðmundar og Valdísar nyti ekki við lengur. Við veitingarekstrinum tók fyrst Ásgeir Eyþórsson, faðir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Síðar tók við Hannes Jónsson. Veitingarekstur lagðist af í húsinu laust fyrir 1915 að talið er.

Eftir að veitingarekstri lauk í húsinu var því breytt í íbúðarhús og taldist þá Hverfisgata 125. Rakel Ólafsdóttir keypti húsið 1916 og lét byggja kvist á framhlið þaks þess1919. Ýmsir fleiri áttu það í framhaldi, m.a. Reykjavíkurborg og Björn T. Gunnlaugsson sem setti þar á fót húsgagnasmíði og innrömmun.

Árið 2006 var húsið fyrir sökum nýbyggingar sem heimiluð hafði verið á lóðinni. Minjavernd flutti húsið til geymslu fyrir Reykjavíkurborg. Völundarverk, verkefni til atvinnuuppbyggingar á vegum Reykjavíkurborgar hóf viðgerðir á húsinu sem Minjavernd hefur nú lagfært og yfirfarið. Minjavernd tók við húsinu 2014 og er fyrirhugað að koma því fyrir á Hlemmi á ný, en unnið er að deiliskipulagi og ákvörðunum um framtíðaryfirbragð þar.

Heimild:  Litbrigði húsanna eftir Guðjón Friðriksson

Myndir