Lindargata 10

Ebenezershús að Lindargötu 10 

Húsið var reist af Ebenezer Helgasyni árið 1913. Hann bjó þá í steinbæ austan hússins hvar nú er Lindargata 12. Sá steinbær var nefndur Ebenezersbær en brann 1934. Afkomendur Ebenezers bjuggu í húsinu eftir hans dag alls í fimm ættliði eða til 2007 er það var selt. Minjavernd keypti húsið 2014.

Húsið var upphaflega snoturt portbyggt hús í sveitserstíl með skreyti undir þakskeggi og við glugga. Það hefur hins vegar verið múrhúðað utan og augnstungið og er nú ekki svipur hjá sjón.

Minjavernd fékk arkitektastofuna R21 í Osló til að annast gerð deiliskipulags fyrir lóðina sem liggur nú fyrir samþykkt. Bergur Þorsteinsson Briem annaðist það verk. Þar er gert ráð fyrir byggingu við húsið til austurs, að húsinu nr. 12. Jafnframt að húsið verði hækkað á sökkli. Þannig má koma fyrir í því fjórum íbúðum. Jafnframt er gert ráð fyrir lítilli byggingu á lóðinni upp að gafli hússins nr. 12 við Smiðjustíg. Alls verða því fimm íbúðir á þessari hornlóð þegar framkvæmdum verður lokið. 
Minjavernd hefur selt Lindargötu 10.

Heimild: Litbrigði húsanna eftir Guðjón Friðriksson.

Myndir