Flatey, Pakkhúsin í Flatey

Eyjólfspakkhús er einlyft portbyggt timburhús með steinhlöðnum sökkli og lágu risþaki. Eyjólfspakkhús var upphaflega byggt á árunum í kringum 1880 af Eyjólfi Einari Jóhannessyni kaupmanni og bónda.  Síðar eignaðist Guðmundur Bergsteinsson útgerðar og kaupmaður húsið og breytti því í fiskþurrkunarhús. Árið 1987 tók Minjavernd húsið yfir til viðgerðar og eignaðist húsið í framhaldi. Húsið var þá orðið mjög hrörlegt og nær að hruni komið. Endurbyggingu þess var lokið árið 2003. Árið 2006 hóf Hótel Flatey rekstur þar.

Samkomuhúsið er einlyft portbyggt timburhús með lágt risþak sem stendur á steinhlöðnum og steyptum múhúðuðum sökkli. Við suðurhlið hússins er anddyri með skúrþaki. Samkomuhúsið var upphaflega byggt sem pakkhús í kringum 1890 en var notað sem loftskeytastöð frá árinu 1918 til ársins 1931 þegar Ungmennafélag Flateyjar fékk húsið til umráða. Þar var öflugt félagsstarf með dansleikjum og samkomum auk þess sem húsið var nýtt fyrir leikfimikennslu barnaskólans í Flatey. Minjavernd tók við húsinu til viðgerða árið 1987 og árið 2007 var opnuð í því veitingasala sem tilheyrir Hótel Flatey.

Stórapakkhús er byggt upp að vesturgafli Samkomuhússins árið 1918. Það er einlyft portbyggt timburhús með lágt risþak og stendur á hlöðnum kjallara. Upphaflega var aðeins byggður steinhlaðinn kjallari 1906, sem nýttur var sem saltgeymsla fyrstu árin. Síðar var reist ofan á kjallarann og þar var bæði saltfiskverkun og pakkhúspláss verslunar í Flatey fram undir 1960. Í kjallara Stórapakkhúss var um tíma ljósavél Kaupfélags Flateyjar. Á síðasta áratug 20. aldar var húsið orðið hrörlegt eins og nágrannar þess Samkomuhúsið og Eyjólfspakkhús og tók Minjavernd það yfir. Það er í dag hluti af Hótel Flatey.

Starfsmenn Gamlhúss ehf og Minjaverndar hf sinntu stærstum hluta hluta endurbyggingar húsanna, ARGOS ehf., Arkitektastofa Grétars og Stefáns voru aðalhönnuðir að þeim og Verkfræðiþjónusta Hjalta, VJI og Víðsjá sinntu verkfræðiþáttum.

Friðheimar og bryggjuskúr   Minjavernd hefur nú lokið við byggingu tveggja húsa í Flatey á Breiðafirði. Húsin voru reist í tengslum við þann rekstur sem fyrir er í gömlum pakkhúsum félagsins í Flatey, Stórapakkhúsi, Samkomuhúsi og Eyjólfspakkhúsi.  Minjavernd hóf endurbyggingu þeirra 1988 og lauk henni 2006. Í þeim húsum öllum er rekið sumarhótel “ Hótel Flatey”. Sá ljóður hefur verið á að í þeim er ákaflega lítið pláss til geymslu og sem næst ekkert rými fyrir starfsfólk. Á þessu hefur nú verið ráðin bót með þeim nýbyggingum sem nú er lokið við. Rekstrarhæfi gömlu húsanna og þessarar heildar er því mun betri. Geymslan er nú í bryggjuskúr niðri við ferjubryggju og í nýbyggingunni eru 7 gistiherbergi ásamt snyrtingum, góðu alrými og eldhúsi. Nýbyggingin hefur hlotið heitið Friðheimar.

Myndir