Hegningarhús

Hegningarhúsið að Skólavörðustíg 9 var byggt 1872. Aðdragandi byggingarinnar var nokkur, en á þeim árum var farið að gæta breyttra viðhorfa hvað refsingu fanga varðar – réttara þótti að tala um og horfa til betrunar fanga en líkamlegrar refsingar. Betrun fólst m.a. í að kenna föngum iðju og leitast við að þeir kæmu betri frá vist en fyrir. Í tilskipun frá 1871 kemur fram að byggja skuli alls 7 fangelsi. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg var eitt þeirra, en jafnframt fangelsi í Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, Ísafirði, Húsavík og á Eskifirði. Þessi hús voru reist, en eru öll horfin nema Hegningarhúsið.

Klentz byggingameistari teiknaði húsið, en Bald byggingameistari hafði umsjón með byggingu þess. Fleiri tillögur voru garðar að byggingunni, td. með og án aðstöðu fyrir Landsyfirrétt og bæjarstjórn. Að niðurstöðu varð að þessar stofnanir fengju rými í húsinu og það fékk á sig núverandi horf. Því hefur lítið verið breytt frá upphafi, nema þá helst 1923 þegar Landsyfirréttur var lagður niður og Hæstiréttur var stofnaður. Þá var inngangi og stiga breytt ásamt herbergjaskipan á efri hæð og gluggum efri hæðar á framhlið. Þetta er stærsta einstaka breytingin sem á því hefur verið gerð. Aðrar eru minni háttar, en þó má til taka að upphaflegum gluggum fyrir fangelsisklefum hefur mörgum verið breytt, þeir upphaflegu voru steyptir úr pottjárni og sveigðir ofan, en í stað nokkurra þeirra voru í áföngum settir hefðbundnir fagagluggar. Það er með nokkrum ólíkindum að bygging þess tók ekki nema um hálft ár. Bald kom til Íslands í maí 1872 og húsið var sem næst fullbúið í nóvember.

Húsið var nýtt fyrir fangelsi allt til 1. júní 2016 eða í um 144 ár. Þar var Landsyfirréttur til húsa ásamt bæjarþingi og Hæstarétti sem áður segir. Saga þess er því mjög merkileg og húsið með þeim merkustu á landinu.

Nokkru fyrir það að rekstri fangelsis var hætt í húsinu var töluverð umræða um þörf á endurbótum á því og fangelsið var rekið á undanþágum um langt árabil. Ekki varð þó af úrbótum, en lágmarksviðgerð fór fram um 2002. Minjavernd og Ríkiseignir gerðu með sér samkomulag 2017 og aftur 2020 og um mitt það ár hófust þær viðgerðir sem nú standa yfir. Þær ná til ytra byrðis hússins, þ.e. viðgerða á gluggum, útihurðum, múrhleðslu veggjam utan og þökum. Viðgerðin er unnin á grunni úttektar Hjörleifs Stefánssonar arkitekts og Hjalta Sigmundssonar byggingatæknifræðings frá 2017. Kostnaðaráætlun þess verkáfanga sem í gangi er nemur um 360 milljónum króna. Verkið hófst um mitt ár 2020.

Framvinda viðgerða á Hegningarhúsi hefur verið nokkuð þétt liðin tæp tvö ár. Lokið er að miklu leyti við viðgerð þess að utan og hafin er vinna við viðgerðir innandyra. Töluverð vinna var við múrviðgerðir útveggja og gert hefur verið við alla glugga þess og útihurðir. Reynt hefur verið að gera við eins mikið af gluggum og kostur var en smíðuð ný fög og sponsað í karma eftir þörfum. Mikil vinna var við þakviðgerðir, en skipta þurfti út hluta af sperrum, alla þakklæðningu, gera við þakkanta, hlaða upp á ný skorsteina og að lokum var þakið allt lagt skífum. Hluti glugga voru steyptir pottjárnsgluggar fyrir fangaklefum. Þeir höfðu allir verið fjarlægðir að einum undanskildum. Nýjir gluggar hafa verið steyptir úr pottjárni, eins og þeir upphaflegu og verða settir í þegar gólf hafa verið steypt.

Að innan hafa gólf verið fjarlægð og mikil vinna lögð í undirbúning endurnýjunar þeirra. Upphaflega voru timburgólf í húsinu, en því var skipt út fyrir steypt gólf í áföngum. Ákveðið hefur verið að setja timburgólf í húsið á ný, en steypt plata verður undir þeim og lagnaleiðir á milli. Hluti innra burðarvirkis neðri hæðar er úr timbri og er það illa farið, fótreimar og stoðir fúnar orðnar.

Innandyrafyrirkomulagi verður ekki mikið breytt, helst að teknir hafa verið niður síðari tíma  veggir. Það liggur ekki fyrir hvaða starfsemi verður í húsinu, en reynt er að hafa hönnun lagna og frágang þannig að valkostir séu til staðar.

Myndir