Stórasel

Storasel

Sels er fyrst getið sem sel frá jörðinni Vík árið 1367 og 1379 er það orðin sjálfstæð jörð. Það tilheyrði Seltjarnanesi fram til 1835 en var þá lagt undir lögsögn Reykjavíkur ásamt hjáleigunni Bráðræði. Jörðin varð síðan eign Reykjavíkur 1888. Á 19 öldinni fara að rísa í landi Sels fleiri tómthúsbýli og nefna má Miðsel, Litlasel, Jórunnarsel og Ívarssel. Miðsel hefur verið rifið  og Ívarssel flutt í Áræbjarsafn, en Jórunnarsel og Litalsel standa enn sambyggð við Vesturgötu.

Stórasel er nú tvöfaldur steinbær, sá eini sem eftir stendur í Reykjavík. Hann var byggður í tveimur áföngum árin 1884 og 1893, en áður hafa staðið torfhús á þessum stað um aldir. Sveinn Ingimarsson, vel þekktur formaður og útvegsbóndi reisti báðar burstirnar. Hann hafði útræði frá Stóru-Selsvör. Fjölmennt hefur oft verið í bænum, en árið 1910 bjuggu þar fjórar fjölskyldur, alls 16 manns.

Þegar Minjavernd tekur húsið yfir til eignar 2015 var það skráð sem tvær eignir. Austari burstina hafði borgin eignast allnokkrum árum áður, en vestari brustina árið 2012. Húsið var þá orðið ákaflega hrörlegt og hengdar höfðu verið við það viðbyggingar af fjölbreyttum toga. Hluti hlaðinna veggja hafði jafnframt verið rifinn við breytingar síðasta ábúanda vestari álmunnar.

Reykjavíkurborg og Minjavernd gerðu með sér samning um 2015 yfirtöku og endurbyggingu Stórasels. Minjavernd fékk ARGOS ehf. Arkitektarstofu Grétars og Stefáns til liðs við uppmælingar og teikningar að endurgerð. Jafnframt var fljótlega ráðist í fornleifarannsóknir bæði utan við húsið sem innan, þ.e. undir því. Staðfestu þær að á þessum stað hafa verið fjölmargar fyrri byggingar, reistar úr torfi og grjóti. Meðal annars komu í ljós falleg steinlögð gólf.

Eftir að forsendur höfðu verið teknar um fyrirkomulag og form endurgerðar hússins og fornleifarannsóknum lokið var hafist handa um framkvæmdir. Ákveðið var að gera húsið að einbýlishúsi. Framkvæmdir tóku nokkurn tíma en styrkja þurfti undirstöður þeirra hlöðnu veggja sem eftir stóðu og endurgera alla sökkla. Þurfti því að taka húsið alveg niður við framvindu. Reynt var að endurnota eins mikið af gömlu efni hússins við endurgerð þess og kostur var. Jafnframt var nýtt gamalt efni úr öðrum húsum þegar staðarefni þraut. Uppbygging hússins hófst 2017 og lauk 2019. Húsið var selt að endurgerð lokinni.                         
Heimild ma.: Guðjón Friðriksson – Litbrigði húsanna.

 myndir