Gröndalshús

Sigurður Jónsson járnmiður lét byggja  húsið 1882 að Vesturgötu 16 b. Hann hafði járnsmiðju sína í austurhluta neðri hæðar hússins. Form hússins og skipulag þess ber upphaflegrar notkunar merki, t.d. eru í því tveir skorsteinar annar fyrir járnsmiðjuna en hinn til nota fyrir húsið að öðru leyti. Jafnframt ber það nokkuð form af efnivið þeim sem til byggingarinnar var notaður, en það var að stórum hluta til timbur úr strandi skipsins Jamestown, stóru skipi sem strandaði við Garðskaga fulllestað timbri. Húsið þótti sérstakt í formi og var í upphafi nefnt Skrínan eða Púltið.

Bygging hússins og rekstur járnsmiðjunnar varð Sigurði ofviða fjárhagslega. Hann missti húsið og verkfæri járnsmiðjunnar urðu grunnur t.d. að Vélsmiðjunni Héðni. Benedikt Gröndal keypti húsið 1888 og bjó í því þar til hann lést 1907. Húsið var nefnt eftir Benedikt eftir að keypti það, kallað Gröndalshús. Gröndalshús er merkilegt bæði fyrir byggingarsögu og form, en ekki síður fyrir þátt sinn í menningarsögu landsins en í því ritaði Benedikt mörg verka sinna og teiknaði þær stórfenglegu myndir og skjöl sem eftir hann liggja.

Húsið var komið í mikla niðurníðslu og stóð í vegi fyrir stórhuga framkvæmdaaðilum hvar það var byggt. Um nokkurt árabil var þrefað um framtíð þess, en að lokum var það flutt af sínum stað og geymt á Grandagarði. Í samningi milli Reykjavíkurborgar og Minjaverndar tók Minjavernd að sér sð annast endurgerð hússins og flutning þess á nýjan stað að Vesturgötu 5 b. Reykjavíkurborg ákvað að eiga húsið og nýta fyrir menningarstarfsemi tengri Reykjavík – bókmenntaborg Evrópu. Húsið var flutt, endurbyggt á vandaðan máta og tekið í notkun í júní 2017. Þar er nú sýning um Benedikt Gröndal á aðalhæð þess, íbúð í kjallara og vinnuaðstaða fyrir fræðimenn á efri hæð.

Myndir