Zimsen

Húsið Zimsen var upphaflega byggt í tveim áföngum á lóðinni Hafnarstræti 21. Það var komið með núverandi mynd sína, stærð og form árið 1899 og er því nú rúmlega 110 ára í heild sinni. Eldri hluti hússins sem er syðri helmingur þess er töluvert eldri, líklega frá 1835. Alla tíð hefur verið rekin verslunarstarfsemi í húsinu, lengst af verslun Thomsen kaupmanns. Um nokkurt árabil var Borgarbílastöðin til húsa í suðurenda hússins og Járnvöruverslun Zimsen í norðurenda.

Vorið 2006 var svo komið að húsið stóð í vegi fyrir byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbanka og varð samkvæmt því skipulagi að hverfa af sínum upphafsstað. Árið 2007 gerðu Minjavernd og Reykjavíkurborg með sér samkomulag um uppbyggingu hússins og tekin var ákvörðun um framtíðarstaðsetningu þess við Grófartorg eða Vesturgötu 2a.

Við hönnun endurgerðar hússins þótti rétt að draga fram helstu stíleinkenni þess frá fyrri tíð. Innra burðarvirki hafði verið mikið raskað í tímanns rás, en það var nú endurgert á nær upphaflegan hátt. Jafnframt þótti rétt að hlaða á ný sökkul hússins og var það gert úr sömu steinum og það stóð upphaflega á við Hafnarstræti.

Húsið ndirstóð á sjárvarkambi upphaflega en smám saman réðust menn í að hlaða hafnarkata norðan hússins og mátti við uppgröft sjá þróun þeirra frá frekar frumstæðri hleðslu yfir í vel formaða steina í múrlími.  Þótti rétt að flytja hluta af þeirri sögu jafnframt með húsinu, gömlu hafnarkantarnir voru því grafnir upp og hver steinn merktur. Þeir voru síðan endurhlaðnir við sjávarfallaþró sem er nú austan hússins með brú yfir.

Í dag er m.a. veitingastaðurinn Fiskfélagið starfræktur í kjallara hússins sjá nánar hér http://www.fishcompany.is/. Bókabúð og bókakaffi Iðs er á 1. hæð þess og hugbúnaðarfyrirtækið Rue de Net á 2. hæð.

Starfsmenn Minjaverndar sinntu stærstum hluta endurgerðar hússins, öllu tréverki og steinhleðslum. Hjörleifur Stefánsson Gullinsniði ehf var aðalhönnuður þess og Verkfræðiþjónusta Hjalta, VJI og Víðsjá sinntu verkfræðiþáttum.

Myndir