Gamla Apótekið - Akureyri

Séð frá Aðalstræti, framhlið apóteksinsGamla Apótekið stendur við Aðalstræti 4 og er eitt stærsta húsið í gamla bænum.

Húsið var byggt 1859 af Jóni Chr. Stephánsyni fyrir lyfsalann Jóhann Pétur Thorarensen. Húsið er stærra en almennt var með hús þess tíma, það var bæði hærra og breiðara ásamt því að húsið var með þakkvisti sem ekki þekktist á þessum tíma. Húsinu var valinn staður í brekkunni fyrir ofan lækinn, stóð því hærra en önnur hús og var því mjög áberandi. Í upphafi bjó lyfsalinn Jóhann í risinu en rak apótek á neðri hæðinni og var það starfrækt þar til 1929 en þá var neðri hæðinni breytt í íbúð.

Ástand hússins var orðið mjög bágborið, það var forskallað 1956 og orðið fúið, missigið nokkuð og illa farið. Markmið Minjaverndar er að endurgera húsið sem næst upprunalegri mynd og er gert ráð fyrir fjórum íbúðum í húsinu. Áætluð verklok eru 2017. ARGOS ehf arkitektastofa annast teikningar að húsinu.

Gamla Apótekið – endurbyggingu lokið.

Minjavernd hefur nú lokið við endurbyggingu Gamla Apóteksins. Verkinu lauk í ágúst 2017. Húsið hafði áður verið selt góðu fólki, félaginu Sjálfstætt fólk ehf.  en eigendur þess eru hjónin Sigríður Sigurjónsdóttir og Halldór Lárusson.  Við sölu hússins var fyrra fyrirkomulagi varðandi endurbyggingu hússins breytt lítillega. Í stað þess að hafa í því fjórar íbúðir var ákveðið að hafa íbúðirnar þrjár. Jafnframt var ráðist í breytingar á deiliskipulagi og er nú heimilt að leigja þar út vandaðar íbúðir til ferðamanna. Lóð hússins og umhverfi þess var allt lagfært, áður var gömul hleðsla við brekkufót neðan hússins og því þótti rétt að hafa þar grjóthlaðinn vegg . Húsið er nú staðarprýði og sómir sér vel í húsa og bæjarmynd.

Myndir