Grettisgötuhúsin

Árin 2013 og 2014 voru fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir bæði að Hverfisgötu 61 og á baklóð að Laugavegi 36.

Á lóðinni Hverfisgata 61 stóð til að byggja íbúðarhús við hlið steypts húss sem fyrir var. Á lóðinni stóð timburhús á horni sem rétt þótti að flytja og forða frá algeru niðurrifi. Reykjavíkurborg fór þess á leit við Minjavernd að félagið tæki húsið til flutnings. Minjavernd annaðist því flutning hússins sem fyrst var geymt úti á Grandagarði.

Á baklóð að Laugavegi 36 stóð lítið hús sem upphaflega var byggt sem götuhús við Laugaveg, en síðar flutt inn á lóðina þegar bakarí Sandholts var reist. Við fyrirhugaðar framkvæmdir hluta húss Sandholts 2014 og breytingar þess í hótel tengdist sú framkvæmd einnig lóðinni Grettisgata 17 en þar var einnig frekar lítið timburhús. Þar voru því tvö hús sem Minjastofnun og Reykjavíkurborg töldu mikilvægt að héldu áfram lífi sínu í einhverri mynd. Á Grettisgötulóðinni stóð einnig gamall silfurreynir sem framkvæmdaaðilar töldu vera fyrir vegna hótelbyggingar. Íbúar í nágreni mótmæltu þeim áformum og að niðurstöðu varð breytt fyrirkomulag framkvæmdar sem hafði í för með sér að umrædd tvö hús færu, en silfurreynirinn stæði eftir.

Þarna voru því þrjú hús í vanda stödd sökum fyrirhugaðra framkvæmda. Íbúar í nærumhverfi húsanna höfðu sterk viðhorf til þess að flytja bæri húsin frekar en rífa og endurgera þeirra líf á nýjum stað á svipuðum slóðum. Þá skipti varðveisla silfurreynisins einnig mjög miklu máli í þeirra huga. Þetta varð því til þess að 2014 var gerður samningur milli Reykjavíkurborgar og Minjaverndar um hús þessi. Lítla húsinu á baklóð Laugavegs 36 var loks fundinn staður að Starhaga 1 eftir nokkurt stapp og hefur nú staðið þar fullbúið um skeið. Hinum tveimur húsunum sem áður stóðu að Hverfisgötu 61 og Grettisgötu 17 var fundin framtíð að Grettisgötu 9a og 9b. Gerð var breyting á deiliskipulagi fljótlega í framhaldi og framkvæmdir við endurgerð þessara húsa á nýjum stað hófust síðla hausts 2022. Fyrirhugað er að þeim verði að mestu lokið síðla árs 2024.

Undir báðum húsum voru á sínum tíma kjallarar. Í deiliskipulagi var því gert ráð fyrir að kjallari yrði undur hvoru húsi, en hann gerður nothæfur og með fullri lofthæð. Við bæði húsin höfðu verið reistar viðbyggingar og þeim breytt með ýmsum hætti í tímans rás. Því var tekin ákvörðun um og heimilað í deiliskipulagi að hafa viðbyggingar við bakhlið húsanna, en leyfa þeim að njóta sín frekar við götuhlið. Í hvoru húsi verða tvær íbúðir og lofthæðir og herbergjaskipan taka að mestu tillit til reglugerða nútíma eða eins og kostur er. Reynt er að halda í upphafleg karaktereinkenni hvors húss. Bæði voru og verða járnklædd. Sperruendar verða td. með upphaflegu sniði á hvoru húsi og gluggar með gerektum sínum einnig. Grunnflötur gömlu húsanna verður sá sami og var og eins mikið notað af gömlu efni úr þeim og kostur er á. Húsin voru hins vegar í verra ásigkomulagi þegar upp var staðið, en ráð hafði verið fyrir gert.

Myndir