Vaktarabærinn - Garðastræti 23

Garðastræti 23 eða Vaktarabærinn eins og húsið er oftast kallað er talið vera byggt árið 1848 eða skömmu fyrir það af Guðmundi Gissurasyni. Guðmundur var vaktari í Reykjavík frá árinu 1830 til1865 og þaðan er nafn hússins komið. Húsið er hluti bæjarhúsanna í Grjóta sem var einn elsti bærinn í Reykjavík og Grjótaþorpið heitir eftir og er húsið það eina sem stendur eftir af bæjarhúsunum. Talið er að Vaktarabærinn sé annað timburhúsið sem byggt er í Grjótaþorpinu á eftir Aðalstræti 10.

Árið 1868 eru fyrst skráðir búendur í húsinu. Árið 1881 er Sigvaldi Kaldalóns tónskáld fæddur í húsinu en faðir hans Stefán Egilsson og móðir Sesselja Sigvaldadóttir voru eigendur hússins á þeim tíma. Í manntölum frá árunum 1930-1960 eru að jafnaði skráðir 6-7 manns í húsinu og búið var í því fram á miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar.

Húsið var friðað 2001 en árið 2008 tók Minjavernd húsið yfir úr höndum Reykjavíkurborgar til endurgerðar. Húsið var mælt upp, teiknað og fornleifarannsóknir fóru fram á lóðinni á vegum Fornleifastofnunar Íslands. Minjavernd lauk síðan við byggingu hússins árið 2010. Starfsmenn Minjaverndr unnu að nær öllum þáttum endurgerðar hússins, ARGOS ehf, Arkitektastofa Stefáns og Grétars voru aðalhönnuðir þess, en Verkfræðiþjónusta Hjalta, VJI og Víðsjá unnu að verkfræðiþáttum.

Myndir