Ólafsdalur

Skólahúsið í ÓlafsdalÓvíst er hvort nokkur staður hér á landi eigi ríkari þátt í þeirri byltingu atvinnuhátta í sveitum landsins sem átti sér stað á seinni hluta 19. aldar en Ólafsdalur í Gilsfirði. Þar stofnaði Torfi Bjarnason búnaðarskóla sem rekinn var árin 1880 til 1907  þar sem bændaefnum var kennt flest það sem til framfara stefndi í búskarparháttum. Samhliða skólanum rak Guðlaug Zakaríasdóttir kona Torfa kvennaskóla þar að sumarlagi. Áhrif Ólafsdalsskólans á íslenskan landbúnað og menntun voru því umtalsverð. Á tíma skólans reis fjöldi bygginga í Ólafsdal, þar á meðal skólahúsið, sem enn stendur, en það var byggt árið 1896. Þá voru meðal annars byggð smiðja, mjólkurhús og tóvinnuhús.

Þótt skólahald leggðist af árið 1907 var búskapur áfram í Ólafsdal til 1963. Eftir það var jörðin í eyði um tíma en búið var þó stopult í Ólafsdal fram til 1972. Nokkru seinna var húsið tekið í notkun um fárra ára skeið sem skólasel Menntaskólans við Sund en stóð eftir það að mestu autt og yfirgefið til 1994.

Byggingar og önnur mannvirki í Ólafsdal voru í vanhirðu og þeim hrakaði ár frá ári. Ýmsum framámönnum íslensks landbúnaðar þótti þetta óviðunandi og árið 1994 var skipuð nefnd undir forsæti Sturlaugs Eyjólfssonar bónda á Efri-Brunná til þess að hrinda af stað aðgerðum til bjargar húsum og mannvirkjum í Ólafsdal. Einkum var það skólahúsið sem var hætt komið, gluggar voru brotnir og þakið lak. Nefndinni tókst að afla fjár til að gera við húsið allt að utan. Gert var við skemmdir, bárujárn endurnýjað og gluggar lagaðir.

Eftir það þokaðist lítið í endurbótum til ársins 2007 þegar Ólafsdalsfélagið var stofnað, félag áhugamanna um verndun menningarminja í Ólafsdal. Síðan hefur verið unnið að ýmis konar framkvæmdum til viðhalds og endurbóta á mannvirkjum staðarins auk námskeiðshalds og sýninga um málefni búnaðarskólans í Ólafsdal. Verkefnið er stórt og betur má ef duga skal.

Minjavernd gerð á haustdögum 2015 samkomulag við ríkissjóð sem felst í að félagið endurreisir byggingar og hefur umsjón með menningarlandslagi á svæðinu, en ríkissjóður afsalar í þessu skyni 57,5 hektara landspildu til félagsins. Ólafsdalsfélagið leitaði á síðasta ári til Minjaverndar um að ganga inn í verkefnið. Heimild ráðherra liggur fyrir í fjárlögum þessa árs. Með samkomulaginu er áfram tryggð frjáls för almennings um svæðið. 
Samkomulagið felur m.a. í sér að Minjavernd tekur að sér að endurbyggja gamla skólahúsið og önnur þau hús sem uppi standa enn að einhverju leyti svo og að endurgera þau hús sem áður stóðu þar og tengdust rekstri og starfrækslu skóla Torfa. Landsmótun ehf mun annast gerð deiliskipulags og Hjörleifur Stefánsson arkitekt mun annast arkitektarteikningar við endurgerð húsanna.

Myndir