Ólafsdalur

Skólahúsið í ÓlafsdalÓvíst er hvort nokkur staður hér á landi eigi ríkari þátt í þeirri byltingu atvinnuhátta í sveitum landsins sem átti sér stað á seinni hluta 19. aldar en Ólafsdalur í Gilsfirði. Þar stofnaði Torfi Bjarnason búnaðarskóla sem rekinn var árin 1880 til 1907  þar sem bændaefnum var kennt flest það sem til framfara stefndi í búskarparháttum. Samhliða skólanum rak Guðlaug Zakaríasdóttir kona Torfa kvennaskóla þar að sumarlagi. Áhrif Ólafsdalsskólans á íslenskan landbúnað og menntun voru því umtalsverð. Á tíma skólans reis fjöldi bygginga í Ólafsdal, þar á meðal skólahúsið, sem enn stendur, en það var byggt árið 1896. Þá voru meðal annars byggð smiðja, mjólkurhús og tóvinnuhús.

Þótt skólahald leggðist af árið 1907 var búskapur áfram í Ólafsdal til 1963. Eftir það var jörðin í eyði um tíma en búið var þó stopult í Ólafsdal fram til 1972. Nokkru seinna var húsið tekið í notkun um fárra ára skeið sem skólasel Menntaskólans við Sund en stóð eftir það að mestu autt og yfirgefið til 1994.

Byggingar og önnur mannvirki í Ólafsdal voru í vanhirðu og þeim hrakaði ár frá ári. Ýmsum framámönnum íslensks landbúnaðar þótti þetta óviðunandi og árið 1994 var skipuð nefnd undir forsæti Sturlaugs Eyjólfssonar bónda á Efri-Brunná til þess að hrinda af stað aðgerðum til bjargar húsum og mannvirkjum í Ólafsdal. Einkum var það skólahúsið sem var hætt komið, gluggar voru brotnir og þakið lak. Nefndinni tókst að afla fjár til að gera við húsið allt að utan. Gert var við skemmdir, bárujárn endurnýjað og gluggar lagaðir.

Eftir það þokaðist lítið í endurbótum til ársins 2007 þegar Ólafsdalsfélagið var stofnað, félag áhugamanna um verndun menningarminja í Ólafsdal. Síðan hefur verið unnið að ýmis konar framkvæmdum til viðhalds og endurbóta á mannvirkjum staðarins auk námskeiðshalds og sýninga um málefni búnaðarskólans í Ólafsdal. Verkefnið er stórt og betur má ef duga skal.

Minjavernd gerði á haustdögum 2015 samkomulag við ríkissjóð sem felst í að félagið endurreisir byggingar og hefur umsjón með menningarlandslagi á svæðinu, en ríkissjóður afsalar í þessu skyni 57,5 hektara landspildu til félagsins. Ólafsdalsfélagið leitaði á síðasta ári til Minjaverndar um að ganga inn í verkefnið. Heimild ráðherra liggur fyrir í fjárlögum þessa árs. Með samkomulaginu er áfram tryggð frjáls för almennings um svæðið. 
Samkomulagið felur m.a. í sér að Minjavernd tekur að sér að endurbyggja gamla skólahúsið og önnur þau hús sem uppi standa enn að einhverju leyti svo og að endurgera þau hús sem áður stóðu þar og tengdust rekstri og starfrækslu skóla Torfa. Landsmótun ehf. mun annast gerð deiliskipulags og Hjörleifur Stefánsson arkitekt mun annast arkitektarteikningar við endurgerð húsanna.

Fyrstu tvö árin eftir að gengið var frá samningi ríkis og Minjaverndar  fóru að mestu í vinnu að skipulagi og hugmyndavinnu verkefnisins. Gengið var í tvígang frá deiliskipulagsbreytingum eftir því sem verkefnið þróaðist. Í tengslum við vinnu að skipulagi var farið í fornleifaskráningu, fyrst á því svæði sem Minjavernd tók yfir til eignar og deiliskipulag nær til. Síðar í framhaldi var ráðist í fornleifaskráningu í öllum Ólafsdal, Hvarfsdal og eyrinni framundan dölunum. Alls eru nú skráðar nær 500 fornminjar á þessu svæði í heild. Eitt sem fannst við skáningu þessa voru ummerki sem gátu bent til gamallrar skálabyggingar að formi. Farið var fyrst í prufuskurði og sýni tekin með jarðvegsbor. Niðurstöður þess bentu til þess að þarna væru fundnar rústir skálabyggingar og jarðhýsis frá víkingaöld. Því var samið við Fornleifastofnun íslands um þriggja ára verkefni sem Fornleifasjóður og Minjavernd hafa kostað að jöfnu. Á þessum þremur árum hefur um 25 metra langur skáli verið grafinn upp og rannsakaður. Jafnframt hafa fundist ummerki um allt að 8 til 10 önnur hús og garða á þessu svæði. Ljóst er því að þarna hefur fundist mannvist sem glæðir sögu dalsins og staðarins enn meira lífi en fyrir var.

Við fund víkingaaldarskálans þróuðust frekar hugmyndir um gönguleiðir, brýr og merkingar um dalina og jafnframt unnið að hugmyndum um bætta aðkomu ferðamanna almennt með bílastæði og snyrtingum. Allt hugsað til að auka möguleika á upplifun fólks. Sótt var um aðkomu verkefnisins að “Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum”. Niðurstaða felur í sér fjárstyrk til alls þessa hluta uppbyggingar ferðaþjónustu á svæðinu sem er mjög gleðilegt og opinber viðurkenning á verkefninu.

Annar þáttur sem til grundvallar er öllum rekstri í nútíma er nægjanlegt rafmagn og upphitun húsa. Þegar Minjavernd kom að máli var fyrirliggjandi rafstrengur frá Orkubúi Vestfjarða sem lá undir Gilsfjörð. Sá var eins fasa og lágstemmdur. Því var hafin samræða við Rarik um fullvaxinn jarðstreng sem lagður var árið 2020 frá Saurbæ og inn hlíðina að Ólafsdal. Næg orka í því formi er því til staðar fyrir alla uppbyggingu svæðisins. Hitun húsa með sjálfbærum hætti er jafnframt mjög ákjósanleg. Leitað var ráða og að niðurstöðu varð 2018 að boraðar voru tvær tilraunaholur nokkru frá húsum. Þær gáfu það góða raun að ári síðan var boruð um 400 metra vinnsluhola neðan bakka sem hús standa á. Hún gaf mjög góðan hitastigul, en nær ekkert vatn. Berg þarna er gamalt og mjög þétt svo hitta þarf beint á sprungu. Enn var ráðist til að bora holu og nú nær húsum eftir að prjónar fræðimanns höfðu lagt til borstað. Það gaf gleðilegan afrakstur með um 8 sekúndulítrum af um 35° heitu vatni. Enn var sú hola dýpkuð 2020 og gaf hærri hitastigul eftir auknu dýpi, en líklega ekki heitara vatn eða meira. Þetta dugar þó mjög vel til allrar hitunar og verður nýtt með liðsinni varmadælubúnaðar. Því er fyrir séð að rekstur á svæðinu verður “grænn” og hægt að kynna hann sem slíkann.

Fyrsti áfangi uppbyggingar og endurgerðar húsa var valinn að endurgera Mjólkurhúsið, stundum nefnt Vatnshúsið. Lokið var við endurgerð þess að ytra byrði 2018. Að því loknu var hafist handa við Fjósið og Haughúsið árið 2019 og eru þau nú komin mjög langt á leið sinni. Jafnframt voru á árinu 2020 steyptar undirstöður fyrir hvort tveggja nýju  Lækjarhúsi eða geymslu og tæknihúsi fyrir svæðið sem og Smíðastofunni. Bæði þessi hús standa rétt norðan Mjólkurhússins og austan við Skólahúsið. Fyrir liggur nú næst að reisa húsin sem á undirstöðunum verða. Samhliða þessu hefur verið reist jarðskemma neðan bakkans sem húsin standa á. Henni er ætlað að vera aðalgeymsla fyrir rekstur á svæðinu og þar er inntak rafstrengs að því. Ennfremur hefur vinna við lagfæringar á Skólahúsinu verið hafin, einkum lagfæring á gluggum hússins.

Samhliða þessu hefur verið rætt við samgönguyfirvöld um gamla þjóðveginn frá núverandi þjóðvegi og inn að Ólafsdal. Í samningi ríkis og Minjaverndar er gert ráð fyrir því að ríki annist og kosti lagfæringu þessa vegar eða aðkomu sem er um 5.5 km að lengd. Vonir standa til þess að lagfæringu hans muni verða lokið árið 2024, en það ár er nú gert ráð fyrir að fyrri áfangi uppbyggingar verði klár og tekinn í notkun.

Myndir