Litbrigði húsanna

Litbrigði húsanna
Litbrigði húsanna

Um margra ára bil hefur staðið til að taka saman yfirlit yfir verkefni Minjaverndar hf. Það þykir eðlilegur hluti hvers endurbyggingarverkefnis að taka saman upplýsingar, fróðleik og lýsingu á verkefni. Þetta varð úr t.d. með eitt fyrsta verkefni Minjaverndar utan Reykjavíkur – Bókhlöðuna í Flatey. Minjavernd tók hana yfir til vörslu 1987 og lauk við endurbyggingu. Það kver heitir Minjavernd 1 og gaf vísum til fleiri slíkra um hvert verkefni. Í önnum daganna varð hins vegar bið á slíku. Umtalsverður fróðleikur um verkefni , samanteknar upplýsingar á prenti, teikningar og þúsundir ljósmynda eru til í fórum félagsins, kvikmyndir voru teknar á fyrstu árum, videospólur tóku svo við sem þróuðust og loks stafrænar kvikmyndir einnig.  Allt fyllir þetta hillur og kassa á skrifstofu og í geymslum.

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og rithöfundur hefur samið texta í nokkrar bækur að segja má, um uppbyggingu Bernhöftstorfu og Aðalstrætis t.d. Loks varð að ráði að hann tæki saman innihald í eina bók um helstu verkefni félagsins frá upphafi, gerði grein fyrir þróun þess og jafnframt tengdi það starf við þróun umræðu og hugsunar um minjavernd og húsvernd almennt. Snorri Freyr Hilmarsson tók síðan að sér að velja myndir í slíkt rit og segja til um uppsetningu þess. Forlagið tók síðan að sér að gefa bókina út sem varð undir lok ársins 2017. Bókin er mjög fróðleg og að hætti Guðjóns skemmtileg aflestrar, ásamt því sem myndir í henni eru fjölmargar og lýsandi. Minjavernd hefur unnið að um 70 verkefnum á starfsárum sínum frá 1985. Félagið var þá stofnað upphaflega sem sjálfseignarstofnun en árið 2000 var því breytt í hlutafélag. Minjavernd byggði upphaf sitt á starfi Torfusamtakanna á Bernhöftstorfu og víðar. Bókina má finna í stærri bókaverslunum.