Lækjargata 10

Undir lok liðins árs seldi Minjavernd húseign sína Lækjargötu 10 í Reykjavík til Íslandshótela hf. Minjavernd keypti húsið af Íslandsbanka árið 2014. Það var gert í ákveðinni samvinnu við Íslandshótel sem keyptu á sama tíma aðrar eignir á reitnum, hús Íslandsbanka að Lækjargötu 12 og Vonarstræti 4b. í sameiningu keyptu aðilar síðan húseignina að Skólabrú 2 og að lokum keyptu Íslandshótel af Reykjavíkurborg Vonarstræti 4. Aðilar hafa síðan átt farsælt samstarf um skipulag svæðisins í heild. Markmið með samstarfi þessu var að leita leiða til heildstæðrar uppbyggingar á reitnum öllum hvar tillit yrði tekið til þeirra gömlu húsa sem fyrir voru um leið og byggð yrði nýbygging á þeirri lóð sem hús Íslandsbanka stóð og þá beggja megin þess. Það er ekki auðvelt mál að finna niðurstöðu slíkrar uppbyggingar. Taka þarf tillit til praktískra sjónarmiða, umtalsverðs fjármagns, útlits fortíðar og framtíðar og ekki hvað síst þess að öllum að óvörum kom í ljós við fornleifarannsókn víkingaaldarskáli, landnámsbær með umtalsverðum minjum sem náðu yfir allar þessar lóðir að segja má. Vitaða var fyrir að á svæðinu milli húss Íslandsbanka og Lækjargötu 10 stóð áður torfbær, Lækjarkot. Sökum þess þurfti að ráðast í rannsókn á hvort einhver ummerki mætti finna um hann. Þau fundust sem sé og gott betur. Í ljós kom skáli sem náði frá norðurgafli húss Íslandsbanka til norðurs, undir Skólabrú 2 og Lækjargötu 10 og undir götuna Skólabrú. Hluti hans hafði verið grafinn burtu við byggingu húsanna sem ofan á stóðu, en eftir sem áður voru leifar hans stórar sjáanlegar og hefur hann verið töluvert stærri en skálinn sem fannst við uppbyggingu Minjaverndar og Þyrpingar á hornlóðum Aðalstrætis og Túngötu, hvar nú er sýning á þeirri rúst á vegum Reykjavíkurborgar.
Á þeim tímamótum þegar fyrirséð var hvernig heildaryfirbragð svæðisins yrði, seldi Minjavernd Íslandshótelum sem áður sagði húseignina Lækjargötu 10. Íslandshótel hafa sýnt því mikinn áhuga að draga fram sögu við allt þetta starf og fyrirhugað er að gera fundi víkingaaldarskálanns góð skil. Unnið er nú í góðu samstarfi Íslandshótela við opinbera aðila að hönnun húss yfir skálann og fyrirkomulagi á sýningu um hann sem hugsanlega mun ná yfir í gömlu húsin í kring. Þetta er kostnaðarsamt verkefni og flókið og til þessa hafa ekki komið neinir fjármunir úr opinberum sjóðum til þess.
Minjavernd vill þakka Íslandshótelum, forsvarsaðilum þar á bæ, sem öðrum þeim sem komið hafa að máli og lagt hönd á plóg til þess að þetta verkefni varð að veruleika.

Myndir