Húsnæði Franska spítalans selt.

 

Minjavernd hf. seldi undir lok ársins 2018 öll hús sem félagið endurbyggði á Fáskrúðsfirði í tengslum við verkefnið Franski spítalinn. Kaupandinn er félagið Austureignir ehf. en Íslandshótel hf munu áfram reka þar hótel undir nafninu Fosshótel Austfirðir. Minjavernd gerði fljótlega eftir að endurbygging Franska spítalans hófst leigusamning við Íslandshótel um rekstur í Franska spítalanum, Læknishúsinu, Sjúkraskýlinu og Líkhúsinu á Fáskrúðsfirði, en einnig endurbyggði Minjavernd Kapelluna þar og skapaði með þessu heildstæða mynd endurbyggðra húsa. Fjarðabyggð tók á leigu hluta húsnæðis í Læknishúsi og í samvinnu Fjarðabyggðar og Minjaverndar var sett þar upp sýning um veiðar Frakka á Íslandsmiðum. Fjarðabyggð mun áfram annast rekstur þeirrar sýningar.

Verkefnið var í samræmi við markmið með rekstri Minjaverndar, stuðla að endurgerð gamalla húsa, draga fram sögu, tengja það uppbyggingu á svæðinu og styrkja yfirbragð og mannlíf. Þetta var stærsta verkefni Minjaverndar á landsbyggð til þessa og tókst svo vel að það hlaut virtustu verðlaun á þessu sviði, European Union Prize for Cultural Heritage / Europa Nostra Avards 2016.  Minjavernd þakkar Íslandshótelum og Fjarðabyggð, forsvarsaðilum og starfsfólki fyrir gott samstarf við verkefni þetta. Jafnframt öllum þeim samstarfsaðilum sem störfuðu með félaginu að uppbyggingunni, verktökum og fjármögnunaraðilum.