Hegningarhús

Framvinda viðgerða á Hegningarhúsi hefur verið nokkuð þétt liðin tæp tvö ár. Lokið er að miklu leyti við viðgerð þess að utan og hafin er vinna við viðgerðir innandyra. Töluverð vinna var við múrviðgerðir útveggja og gert hefur verið við alla glugga þess og útihurðir. Reynt hefur verið að gera við eins mikið af gluggum og kostur var en smíðuð ný fög og sponsað í karma eftir þörfum. Mikil vinna var við þakviðgerðir, en skipta þurfti út hluta af sperrum, alla þakklæðningu, gera við þakkanta, hlaða upp á ný skorsteina og að lokum var þakið allt lagt skífum. Hluti glugga voru steyptir pottjárnsgluggar fyrir fangaklefum. Þeir höfðu allir verið fjarlægðir að einum undanskildum. Nýjir gluggar hafa verið steyptir úr pottjárni, eins og þeir upphaflegu og verða settir í þegar gólf hafa verið steypt.

Að innan hafa gólf verið fjarlægð og mikil vinna lögð í undirbúning endurnýjunar þeirra. Upphaflega voru timburgólf í húsinu, en því var skipt út fyrir steypt gólf í áföngum. Ákveðið hefur verið að setja timburgólf í húsið á ný, en steypt plata verður undir þeim og lagnaleiðir á milli. Hluti innra burðarvirkis neðri hæðar er úr timbri og er það illa farið, fótreimar og stoðir fúnar orðnar.

Innandyrafyrirkomulagi verður ekki mikið breytt, helst að teknir hafa verið niður síðari tíma  veggir. Það liggur ekki fyrir hvaða starfsemi verður í húsinu, en reynt er að hafa hönnun lagna og frágang þannig að valkostir séu til staðar.

Myndir