Friðheimar og bryggjuskúr í Flatey

Friðheimar
Friðheimar

Minjavernd hefur nú lokið við byggingu tveggja húsa í Flatey á Breiðafirði. Um er að ræða geymsluhús staðsett á ferjubryggju og 7 herbergja nýbyggingu þar sem er snyrting, gott alrými og eldhús. Nýbyggingin hefur hlotið nafnið Friðheimar.
Húsin voru reist í tengslum við þann rekstur sem fyrir er í gömlum pakkhúsum félagsins í Flatey.
Minjavernd lauk að fullu við endurgerð þriggja pakkhúsa í Flatey árið 2007. Það eru Eyjólfspakkhús sem lokið var við 2003, Samkomuhús sem var lokið við 2006 og Stórapakkhús sem lauk 2007. Húsin voru endurgerð með gistingu og greiðasölu fyrir ferðamenn í huga og hefur gefið góða raun. Sá galli var þegar í upphafi á því máli, að aðstaða fyrir starfsmenn og geymslur var nær engin í þessum húsum.Því hefur allar götur síðan verið leitað leiða til að bæta þar úr. Sú leið reyndist nokkuð tafsöm, en árið 2017 varð úr að reisa tvö hús vestarlega á Flatey hvar heitir Tröllendi fyrir þessi not. Gengið var frá deiliskipulagi og hafin bygging gistihúss sem fékk heitið Friðheimar. Húsið er með alls 7 gistiherbergjum og sameginlegu rými fyrir eldhús og stofu ásamt geymsluskúr við hlið. Það verður mikil bót að þessari bættu aðstöðu og í raun forsenda fyrir rekstri ferðaþjónustu í pakkhúsunum að koma bættri aðstöðu upp.
Geymsluaðstaða er hugsuð í skúr ofan við Baldursbryggju. Þar verður hægt að koma vörum og öðrum hlutum fyrir eftir þörfum og er því fundin góð lausn á lager og geymsluaðstöðu með þeim hætti.

Myndir