Undirritun í Paimpol

Undirritun samstarfsyfirlýsingar um uppbyggingu Franska Spítalans á Fáskrúðsfirði Borgarstjórnar Paimpol í Frakklandi og Minjaverndar fór fram í hátíðarsal ráðhússins í Paimpol þriðjudaginn 31. maí kl. 11:00 að viðstöddum borgarstjóranum, Jean-Yves de Chaisemartin, menningarfulltrúanum, France Le Bohec, hægri hönd borgarstjóra, Annie Mobuchon, og fleiri fulltrúum úr borgarstjórninni, fulltrúi Minjaverndar var framkvæmdastjórinn Þorsteinn Bergsson og fulltrúi Alliance Francias var forseti AF Friðrik Rafnsson.  Ennfremur voru stjórnarmenn úr Grundapol og nokkrir blaðamenn viðstaddir. Skipst var á gjöfum og borgaryfirvöld buðu til hádegisverðar.

Daginn eftir, miðvikudaginn 1. júní kl. 11:00, var fundur með sjómannasamtökum héraðsins undir forystu formannsins og útgerðarmannsins Yannick Hémeury. Þangað mættu borgarstjóri Paimpol, forráðamenn sjómannaskólans á staðnum, blaðamenn og fleiri. Verkefnið var kynnt viðstöddum, spurningum svarað og loks afhentu þeir ávísun með táknrænni upphæð, 1000 evrum, með því fororði að þetta væri upphafið að meiru síðar og jafnframt fordæmi til félagsmanna og annarra sem málið varðar að leggja verkefninu lið.